Lýsing
Tjaldsvæðið er staðsett vestast við Eyrarbakka, vestan við Hafnarbrú. Tjaldsvæðið er í nálægð við fuglafriðland og rétt við fjöruna.
Eyrarbakki er vinalegt þorp við Suðurströndina sem státar af mikilli sögu, vel varðveittum gömlum húsum og fallegri náttúru. Tvö söfn eru á Eyrarbakka, Byggðasafn Árnesinga sem er staðsett í Húsinu, sögufrægum bústað kaupmanna, og Sjóminjasafnið sem er örskammt frá. Í Húsinu ríkir hlýlegur og heimilislegur andi og sagan er við hvert fótmál. Söfnin standa í miðju þorpi rétt við kirkjuna. Í Eyrarbakkakirkju er að finna altaristöflu málaða af Louise drottningu Kristjáns IX. Á sömu torfu er veitingastaðurinn Rauða Húsið sem tekur vel á móti svöngum ferðalöngum hvort sem er í kaffi eða mat. Allir verða að taka sér göngutúr um þorpið. Þá má virða fyrir sér gömlu húsin, heimsækja handverkskonuna Regínu eða koma við í gamla frystihúsinu í Gónhól þar sem eru markaðir og gallerí. Austarlega á Bakkanum er Vesturbúðin, alhliða verslun og bensínstöð þar sem helstu nauðsynjavörurnar fást og hægt að horfa á boltann í beinni.
Svört sendin fjaran sem teygir sig að Ölfusárós heillar marga þó aðrir láti sér næga létta göngu eftir sjóvarnargarðinum. Norðan við þorpið er fuglafriðlandið, einstök náttúruperla sem vert er að skoða. Austan við þorpið trónir listaverkið Krían eftir Sigurjón Ólafsson myndhöggvara.
Viljir þú sá þorpið iða af lífi þá er vert að heimsækja Eyrarbakka í lok maí á Vori í Árborg, á Jónsmessuhátíð í lok júní, Íslenska safnadeginum annan sunnudag í júlí eða þá að skella þér 100 ár aftur í tímann á Aldamótahátíð um miðjan ágúst.
Í þorpinu eru þrjú gistihús, Gónhóll, Rein og Suðurgata.
Tjaldsvæðið er staðsett vestast í þorpinu í rólegu og þægilegu umhverfi, góðar gönguleiðir eru frá tjaldsvæðinu hvort sem um er að ræða að skoða rómaðan Eyrarbakkan eða skemmtileg fjöruganga.
Tjaldsvæðið er einfalt með köldu og heituvatni, Rafmagn er á svæðinu. Leiksvæði er mjög fínt.
Bygging stendur yfir á nýju þjónustuhúsi þar sem verða sturtur, ásamt þvottavél og þurkara, áætlað er að það verði tekið í notkun um miðjan júní.
Opnunartími
15 maí - 1. okt
Setja inn umsögn