Lýsing
Stokkseyri er lítið þorp við suðurströndina sem er þekkt fyrir fuglalíf og stórbrotna og fagra fjöru þar sem skiptast á skeljasandur, sker, flúðir og lón. Öflugt lista- og menningarlíf er á svæðinu, þar sem vinnustofur, sýningarsalir og söfn leynast víða, auk handverks af ýmsu tagi. Dæmi um söfn er Veiðisafnið þar sem má skoða uppstoppuð dýr frá ýmsum heimshornum, Draugasetrið þar sem gestir fá að heyra draugasögur af bestu gerð um leið og þau ganga um safnið og Álfa- trölla- og norðurljósasetrið sem bíður upp á sýningar af ýmsu tagi. Einnig er þar að finna Þuríðarbúð sem er endurgerð verbúð sjómanna sem sýnir vel aðbúnað verbúðarfólks á fyrri öldum og austan við Stokkseyri stendur sjálfur Knarrarósviti í allri sinni dýrð og rétt við vitann er Rjómabúið við Baugsstaði þar sem eru til sýnis munir sem notaðir voru við mjólkurvinnslu á árum áður.
Tjaldsvæðið á Stokkseyri er mikið endurbætt svæði þar sem salernisaðstaða hefur fengið yfirhalningu, sturtur eru á staðnum og sett hefur verið upp losunaraðstaða fyrir húsbíla. Rafmagn hefur verið endurbætt og ætlunin er að fjölga tenglum fyrir komandi ferðasumar. Leikvöllur hefur verið settur upp fyrir börnin og göngustígur frá tjaldsvæðinu sem endar í miðbæ Stokkseyrar. Strætó gengur milli Eyrarbakka, Selfoss og Stokkseyrar alla virka daga svo stutt er í aðra afþreyingu á svæðunum í kring.
Á Stokkseyri er veitingastaðurinn Við Fjöruborðið sem rómaður er fyrir humarveislur og aðrar girnilegar kræsingar. En einnig er verslunin Skálinn, þar sem hægt er að versla eldsneyti og helstu nauðsynjavörur, auk veitinga. Sundlaug Stokkseyrar er lítil og notaleg þar sem bæði eru heitir pottar og vaðlaug fyrir börnin, auk rennibrautar. Laugin er opin alla daga yfir sumartímann og er aðgangur ókeypis fyrir yngri en 18 ára. Ýmis önnur afþreying er í þorpinu, til dæmis eru skemmtilegar gönguleiðir víða, kajakferðir eru í boði við Löngudæl, hægt er að veiða í Hraunsá og svo er auðvelt að komast í tengsl við dýralíf þar sem víða eru hestar á beit, kindur og jafnvel kýr. Árlega eru haldnar hátíðir á Stokkseyri, má þar nefna lista- og menningarhátíðina Vor í Árborg, sem haldin er í maí, Bryggjuhátíð í lok júlí og Færeyska fjölskyldudaga um verslunarmannahelgina.
Verð 2015
Verð fyrir fullorðna: 1000 kr.
Verð fyrir börn: frítt fyrir börn undir 12 ára
Rafmagn: 700 kr sólahringurinn.
Tekið er við greiðslukortum
Setja inn umsögn