Lýsing
Hótel Saga er staðsett við Hagatorg í hjarta Vesturbæjarins. Þaðan er stutt að sækja fjölbreytta menningu og afþreyingu hvort sem það er slökun í heitum laugum sundlaugar Vesturbæjar, fjöruferð að gömlum beitingaskúrum á Ægisíðunni með "gamla ísinn" eða þann "nýja" í hönd eða bara niðrí bæ sem er einungis í 10 mínútna göngufæri frá anddyri hótelsins.
Hótel Saga er sömuleiðis í næsta nágrenni við Reykjavíkurflugvöll. Þá ganga flugrútur reglulega beint á milli hótelsins og Keflavíkurflugvallar sem er mikill kostur þegar skipuleggja á fundi og önnur mannamót. Sex sérútbúin fundarherbergi þjóna jafnt stórum hópum sem smáum enda hefur Hótel Saga hlotið alþjóðlegar viðurkenningar (World Travel Awards - Iceland's Leading Business Hotel) fyrir faglega og persónulega þjónustu. Matreiðslumeistarar hótelsins tryggja fyrsta flokks veisluþjónustu hvort sem um ræðir nýbakað brauð handa fundargestum á milli mála eða hátíðarhlaðborð í Súlnasal. Eftir langan fundardag, eða bara Müllersæfingar í Vesturbæjarlauginni, jafnast ekkert á við ljúffengan kvöldverð á Mími. Gestir hótelsins geta annars gert sínar æfingar í æfingasal hótelsins, farið í klippingu á hárgreiðslustofunni eða bara notið útsýnisins úr einu af 235 herbergjum hótelsins.
Hótel Saga var upphaflega reist af stórhuga bændum sem vildu tryggja sér góðan íverustað þegar þeir ráku erindi sín í höfuðborginni. Dugði þá ekkert minna en nýtísku hótelbygging eftir nýjustu straumum utan úr heimi. Síðan þá hefur Hótel Saga þjónað gestum og gangandi, hýst veislur til heiðurs erlendum þjóðhöfðingjum, gist geimfara, rokkstjörnur og að sjálfsögðu bændur í ríflega hálfa öld. Lothar Grund mótaði upprunalegt útlit herbergja, veislusala og annarra íverustaða Hótel Sögu á sínum tíma sem stendur enn sem minnisvarði um þann metnað sem lagt var í byggingu hótelsins á sínum tíma og skilar sér nú áfram til næstu kynslóða þegar sagan heldur áfram.
Hótel Saga vill þannig treysta sambandið við uppruna sinn en um leið skapa nýjan spennandi vettvang fyrir borgarbúa, hótelgesti og eigendur sína: íslenska bændur. Matreiðslumeistarar okkar hafa þegar þróað matarstefnu þar sem hráefni er sótt beint til bænda og þróað í samstarfi við þá. Ferskt grænmeti, krydd og úrvals kjötvara sem verkuð er á staðnum tryggir gæði og umhverfisvæna nýtingu á öllu hráefni.
Setja inn umsögn