Lýsing
Við Gísli Sveinsson og Ásta Begga Ólafsdóttir bjóðum ykkur hjartanlega velkomin til okkar í sveitina okkar, Miðás.
Þar rekum við gistingu á heimilinu okkar 2 herbergi, ásamt því að vera með tvö lítil hús með sér herbergjum. Gisting fyrir allt að 10 manns. Við rekum hestabú og getum tekið á móti allt að 30 manna hópum í veitingar auk ýmis konar afþreyingu og upplifunar.
Tilvalið fyrir fjölskyldur, starfsmannahópa, vina- og vinkonuhópa, eldriborgara eða aðra að koma í dagsferðir eða lengri dvöl. Við sníðum dvölina eftir óskum hvers og eins. Endilega hafið samband ef þið eruð með sérstakar óskir eða viljið fá hugmyndir fyrir ykkar hóp.
Hestar:
Við bjóðum upp á ýmis konar hestatengda afþreyingu og upplifun, til dæmis:
Hestaleiga með leiðsögn, frá 1 klukkustund og upp í dagsferðir
Sveitadvöl þar sem hægt er að ríða út frá kl. 10-18, auk þess að vera í fullu fæði og gistingu á staðnum.
Frábær inniaðstaða fyrir hestamennsku. Við getum útvegað reiðkennara til að kenna á staðnum.
Reiðnámskeið fyrir börn og unglinga. Ýmsar útfærslur í boði.
Fólk getur komið með eigin hross, notið frábærra reiðleiða hér í kring og fengið leigð hross á staðnum ef það vantar fyrir einhverja í hópnum/fjölskyldunni.
Við erum með mikið af góðum hrossum til sölu, hægt er að koma og prófa eða dvelja hjá okkur og kynnast hrossunum áður en þau eru keypt.
Hægt er að ganga að hrossunum okkar út í haga stutt frá og klappa þeim. Við erum meðal annars með hryssur með folöld.
Taka þátt í daglegum störfum í kringum hrossin, svo sem smala, gefa, hirða og annað sem fylgir hestamennskunni.
Matur
Við leggjum mikla áherslu á góða upplifun gestanna okkar og reynum að mæta óskum gesta eins og hægt er.
Við bjóðum upp á fullt fæði allan daginn fyrir gesti sem dvelja hjá okkur. Morgunverð, morgunkaffi, hádegismat, miðdegiskaffi, kvöldmat og kvöldkaffi.
Við getum tekið á móti allt að 30 manns í hádegisverðarhlaðborð, kaffihlaðborð, kvöldverðarhlaðborð.
Við erum einnig með veisluþjónustu og getum tekið að okkur ýmis konar veislur svo sem brúðkaup, fermingar, afmælisveislur, ættarmót, ráðstefnur, fundi eða annað.
Við bjóðum upp á matreiðslu og bakstursnámskeið, bæði hjá okkur í Miðási eða annars staðar. Dæmi um námskeið: Brauðbakstur, salatgerð, eftirréttir, hefðbundið íslenskt kaffibakkelsi, sunnudagssteikin, grænmetisfæði eða annað sem hentar hópnum.
Önnur afþreying og upplifun í Miðási
Við bjóðum upp á ýmis konar afþreyingu á svæðinu og reynum að mæta þörfum og óskum gesta og þeirra hópa sem dvelja hjá okkur.
Gönguferðir í Miðási eða nágrenni, með eða án leiðsagnar.
Í Miðási búa hreinræktaðar íslenskar tíkur, Pitla og Píla sem eru frábærir félagar. Þær eignast reglulega hvolpa sem gaman er að klapp og halda á. Pitla og Píla syngja líka með harmonikkuspili fyrir flesta okkar gesti.
Kötturinn Pollý býr einnig í Miðási og er frábær starfskraftur í hesthúsinu.
Við bjóðum upp á frábæra aðstöðu til að njóta kyrrðarinnar í sveitinni við lestur, prjón, púsl eða annað sem hentar.
Dóttir okkar, Inga Berg Gísladóttir er náms- og starfsráðgjafi auk þess að vera búin að ljúka grunnnámi í markþjálfun. Hún býður upp á námskeið/vinnustofur fyrir einstaklinga eða hópa þar sem unnið er með styrkleika, vellíðan og þakklæti.
Afþreying í nágrenni við Miðás:
Við eigum frábæra nágranna sem gaman er að heimsækja auk þess sem ýmsir skemmtilegir staðir eru í nágrenninu, hér koma nokkur dæmi:
Nágrannar: Eftirfarandi aðilar bjóða upp á vörur til sölu sem mjög gaman er að skoða. Við getum boðið upp á reiðtúr eða göngutúr til þeirra með eða án leiðsagnar:
Spunaverksmiðja Uppspuna: Spunnið garn úr íslenskri ull, ýmis konar handverk til sölu - www.uppspuni.is
Renniverkstæði Lækjartúni: Heimagert handverk úr tré.
Sútunarverkun Hárlaugsstöðum: Sútun á skinnum og ýmis konar handverk úr ull, heimagerðar sápur og ýmislegt fleira - silla@emax.is
Fjarlægir frá fallegum og áhugaverðum stöðum til að heimsækja:
Urriðafoss: 7 km
Landmannalaugar: 131 km
Gjáin og Stöng: 65 km
Laugaland (sundlaug): 16 km
Hellirinn á Hellum: 34 km
Þórsmörk: 79 km
Vík: 110 km
Seljalandsfoss: 50 km
Skógafoss: 79 km
Landeyjahöfn: 60 km
Selfoss: 20 km
Þingborg: 15 km
Gullfoss: 75 km
Geysir: 65 km
Laugarvatn: 62 km
Við hlökkum til að heyra frá ykkur.
Verið hjartanlega velkomin í Miðás.
Setja inn umsögn