Lýsing
Skálholtsstaður er einn helsti sögustaður Íslands. Þar var stofnað biskupssetur árið 1056 og var staðurinn á margan hátt höfuðstaður Íslands í 750 ár. Hann var eitt helsta menntasetur þjóðarinnar um aldir, þar voru skrifaðar og þýddar bækur en einnig varðveitt handrit. Skálholt var sögusvið átaka siðaskiptana um 1550 og þar var síðasti kaþólski biskupinn Jón Arason hálshöggvinn það ár. Í fjósinu í Skálholti var einnig hafin þýðing Biblíunnar á íslensku. Skálholt er einnig sögusvið harmsögu Ragnheiðar Brynjólfsdóttur biskups og ástmanns hennar Daða Halldórssonar.
Skálholtsdómkirkja var vígð 1963 og er hún tíunda kirkjan sem stendur þar á sama stað. Sú fyrsta var reist skömmu eftir árið 1000 þegar Íslendingar tóku kristni. Áður en kirkjan var reist fóru fram merkilegar fornleifarannsóknir á staðnum undir stjórn dr. Kristjáns Eldjárn seinna forseta Íslands. Fannst þá m.a. steinkista Páls biskups Jónssonar sem jarðsettur var árið 1211 og er hún talin einhver merkilegasti fornleifafundur Íslandssögunnar.
Í Skálholtsdómkirkju er að finna einhver merkilegustu listaverk 20. aldar á Íslandi; steindir gluggar Gerðar Helgadóttur og altaristafla Nínu Tryggvadóttur auk muna úr þeirri kirkju sem Brynjólfur Sveinsson biskup reisti 1650.
Kirkjan er opin alla daga ársins frá kl. 9 til 18 og messur eru alla sunnudagsmorgna kl. 11.
Hljómburður Í Skálholtdómkirkju þykir einstakur og eru þar oftsinnis haldnir tónleikar af innlendum sem erlendum tónlistarmönnum. Í Skálholtsdómkirkju hafa verið haldnir sumartónleikar frá 1975 þar sem lögð er áhersla á barok og nútímatónlist og er hátíðin ein sú elsta sinnar tegundar á Norðurlöndum.
Skálholtsskóli starfar sem fræðslu- og menntasetur kirkjunnar.. Haldin eru námskeið af ýmsu tagi, málþing, ráðstefnur, tónleikar, listsýningar og kyrrðardagar sem skólinn eða hinar ýmsu stofnanir samfélagsins efna til og skipuleggja. Þar eru einnig haldnir kyrrðardagar og pílagrímagöngur eru í Skálholt á sumrin enda var staðurinn helsti pílagrímastaður Íslands á miðöldum.
Í Skálholtsskóla eru fræðslu- og ráðstefnusalir sem rúma um 80 manns en þeim má skipta í þrjá minni sali. Matsalurinn með bókakaffi rúmar 120 manns, vistleg setustofa er með arni og sjónvarpi. Í skólanum eru 36 gistirými og þar að auki er gistiaðstaða fyrir 35 í öðrum húsakynnum staðarins. Boðið er upp á uppbúin rúm sem svefnpokagistingu. Í Skálholtskóla er boðið upp á miðaldakvöldverð að hætti höfðingja á 13. öld.
Setja inn umsögn